Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun um skólavist á framhaldsskólabraut skóla

Ár 2019, þriðjudagur 8. október, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

 

ÚRSKURÐUR

í stjórnsýslumáli nr. MMR19080061

I.

Kæra, kröfur og kæruheimild

Mennta- og menningarmálaráðuneyti barst með tölvupósti þann 12. ágúst 2019, stjórnsýslukæra A og B (hér eftir nefnd „kærendur“), dags. 7. ágúst 2019, vegna ákvörðunar [framhaldsskólans] X um að synja ólögráða barni þeirra, C (hér eftir „barn kærenda“), um skólavist á framhaldsskólabraut skólans skólaárið 2019-20. Í kærunni kemur enn fremur fram það mat kærenda að ekki hafi verið að sjá af rökstuðningsbréfi skólans fyrir ákvörðuninni að leiðbeiningar um kæruleið til ráðuneytisins hafi verið veittar með réttum hætti. Kærendur ítrekuðu kæruna með tölvupósti dags. 14. og 20. ágúst 2019.

 

Kæruheimild vegna ákvörðunar X í fyrirliggjandi máli er að finna í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.

Málsmeðferð

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. ágúst 2019, var óskað eftir umsögn X um framangreinda kæru, auk annarra gagna eða upplýsinga sem málið kynnu að varða. Bréf ráðuneytisins var jafnframt sent með tölvupósti dags. 21. ágúst 2019, til skólans.

Með tölvupósti dags. 20. ágúst 2019, óskuðu kærendur eftir upplýsingum um stöðuna á kærunni og upplýstu jafnframt um að barn þeirra hefði ekki fengið inngöngu í öðrum framhaldsskóla, enda gæti námskraftur þar sem því hefði verið boðin skólavist, ekki talist framhaldsskóli samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Ráðuneytið svaraði tölvupósti kærenda með tölvupósti dags. 21. ágúst 2019, og upplýsti um stöðu kærunnar og væntanlegan feril málsins innan ráðuneytisins. Þá óskaði ráðuneytið í sama tölvupósti eftir afrit af rökstuðningsbréfi X fyrir ákvörðuninni sem vísað væri til í kærunni en ekki hefði fylgt með. Kærendur sendu afrit af rökstuðningsbréfinu sama dag. Þá átti ráðuneytið jafnframt símtal við móður sama dag, þar sem einnig var farið yfir stöðu málsins og feril stjórnsýslukærunnar.

Með tölvupósti dags. 22. ágúst 2019, óskuðu kærendur á ný eftir upplýsingum um stöðu kærunnar. Ráðuneytið svaraði tölvupósti kærenda með tölvupósti dags. 23. ágúst 2019, og upplýsti um stöðuna og ítrekaði feril stjórnsýslukæra innan ráðuneytisins.

Þann 26. ágúst 2019, fékk ráðuneytið sent afrit af tölvupóstsamskiptum milli móður barnsins og Menntamálastofnunar þar sem Menntamálastofnun hafði að beiðni ráðuneytisins verið beðin að leita allra leiða við að finna skólavist fyrir barnið vegna mats kærenda á því að barnið væri án skólavistar og að það bryti í bága við ákvæði 1. mgr. 32. gr. laga um framhaldsskóla, þar sem fram kemur að þeir sem hafa lokið grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Var barninu útveguð skólavist á framhaldsskólabrú í [framhaldsskólanum] Y en kærendur afþökkuðu þá skólavist þar sem barnið þekkti engan í skólanum auk þess sem tíminn sem tæki barnið að komast til og frá skólanum væri of langur að mati kærenda. Ítrekuðu kærendur ósk sína um að barnið fengi skólavist í X.

Með tölvupósti dags. 26. ágúst 2019 til ráðuneytisins, ítrekaði móðir barnsins nauðsyn þess að hraða málinu auk þess sem barnið væri án skólavistar þar sem það hafði afþakkað skólavistina í Y. Ráðuneytið svaraði tölvupóstinum samdægurs og ítrekaði meðferð kærumálsins innan ráðuneytisins.

Umsögn X barst með tölvupósti dags. 27. ágúst 2019.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 27. ágúst 2019, var kærendum send umsögn X til athugasemda. Athugasemdir kærenda bárust ráðuneytinu með tölvupósti dags. 10. september 2019.

Vísað verður til framangreindra svara og athugasemda eftir því sem þurfa þykir hér á eftir.

III.

Málsatvik og málsástæður

1.

Samkvæmt kærunni er barn kærenda 16 ára [] sem lauk grunnskóla í vor. Barnið er langveikt, mikið lesblint, með ADHD greiningu, mótþróaþrjóskuröskun og kvíða. Fram kemur að barnið komi frá reglusömu heimili þar sem það njóti stuðnings og aðhalds sem unglingur á mikilvægum tímamótum. Barnið var með aðlagað námsefni og stjörnumerkt námsmat alla grunnskólagönguna en engu að síður hafi það ekki valdið þeim námskröfum sem á það voru sett, hvort sem það væri vegna vangetu, kvíða eða óraunhæfra krafna. Fram kemur að barnið eigi sér ekki neina sögu um óreglu, reyki hvorki né drekki, hafi ekki verið í neyslu og alla tíð mætt samviskusamlega til skóla. Þá segir að barnið þjáist ekki af skólaforðun og langi til að stunda nám við X með félögum sínum.

 

Í kærunni er vísað til 1. mgr. 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, þar sem segir að þeir sem lokið hafi grunnskólamenntun eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þá benda kærendur á að í athugasemdum með greininni segir að með ákvæðinu sé ólögráða nemendum tryggð fræðsluskylda en slíkt sé nýmæli. Þá benda kærendur á að samkvæmt 33. gr. laga um framhaldsskóla eigi allir nemendur rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem taki mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Samkvæmt 5. mgr. 34. gr. laganna skal leitast við að veita þeim nemendum sem eigi við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi sérstakan stuðning.

 

Þá vekja kærendur athygli á einkunnarorðum framhaldsskólabrautar X en þau séu „Aðhald, umhyggja, árangur“. Einkunnarorð skólans séu síðan []. Kærendur benda á að þó að einkunnarorð séu ekki réttarheimild verði að segja að það skjóti skökku við að sjá skólann ýta barni þeirra frá þvert á fyrrgreindum kjörorðum.

 

Sem fyrr segir benda kærendur á að barn þeirra glími við talsverða námsörðugleika sem og sjúkdóma. Þrátt fyrir að það eigi vini, standi það ekki sterkum fótum félagslega. Í haust hafi kjarnavinahópur þess innritast í [framhaldsskólann] X en samkvæmt ákvörðun skólans er barn kærenda tekinn út fyrir sviga. Að mati kærenda verði ekki annað séð en að sú ákvörðun sé í andstöðu við e-lið 1. tl. 28. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en sáttmálinn var lögfestur hér á landi með lögum nr. 19/2013. Hið sama verði að segja um ákvæði 29. gr. sáttmálans. Réttindi samkvæmt sáttmálanum skulu tryggð hverju barni innan lögsögu ríkisins óháð fötlun eða öðrum aðstæðum barnsins sbr. 1. mgr. 2. gr. sáttmálans.

 

Að mati kærenda stendur barn þeirra á tímamótum í lífi sínu. Ef námsferill barnsins er kannaður sést að þar fari barn sem þarf aðstoð við nám og til þess að vaxa og dafna sem einstaklingur. Fái ákvörðun X að standa óhögguð verði að teljast hætta á að barnið fjarlægist vini sína sem hefja framhaldsskólagöngu í skólanum. Að mati kærenda verði ekki séð að úrræðin sem drengnum standi til boða í staðinn, séu í samræmi við þau réttindi og fyrrgreindar lagagreinar kveða á um. Synjun X sé því í ósamræmi við það markmið og ákvæði framhaldsskólalaganna um að tryggja börnum rétt til náms.

 

Með vísan til framangreinds fara kærendur fram á það á ákvörðun X verði endurskoðuð og að barn þeirra fái inngöngu á framhaldsskólabraut skólans. Þá óska kærendur eftir því að meðferð málsins verði hraðað eins og kostur með það að markmiði að barnið geti hafið nám við skólann strax í haust. Framtíð barnsins velti á næstu skrefum en sárt sé fyrir ungt barn á þessum tímapunkti að fá ekki tækifæri til að reyna og fylgja félögum sínum.

 

2.

Í kjölfar ákvörðunar X um að synja barni kærenda um skólavist á framhaldsskólabraut skólans veturinn 2019-20, óskuðu kærendur eftir rökstuðningi frá skólanum fyrir ákvörðuninni. Í rökstuðningsbréfi skólans, dags. 28. júní 2019, kemur fram að við innritun nemenda úr 10. bekk sé tekið mið af aðalnámskrá framhaldsskóla 2011. Þar segi m.a. „Í skólasamningi framhaldsskóla við mennta- og menningarmálaráðuneytið skal kveðið sérstaklega á um skyldur viðkomandi framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur og kröfur sem skóli leggur til grundvallar við innritun nemenda í skólann eða á einstakar námsbrautir hans.“ (14:3). Í bréfinu segir að X innriti nemendur inn á brautir í samræmi við þær forkröfur sem gerðar eru á hverja braut. Í bréfinu segir enn fremur að skólinn hafi innritað tvo hópa á framhaldsskólabraut á haustönn 2019. Hóparnir séu fullir og innritunin tekið mið af þeim forsendum sem gerðar eru á brautina. „Nemandi með einkunn C og D í kjarnagreinum innritast á framhaldsskólabraut“. Nemendum hafi verið raðað inn á brautina í samræmi við einkunnir úr grunnskóla og færri komist að en sóttu um á brautina. Miðað við einkunnir úr grunnskóla uppfyllti sonur kærenda ekki þær námskröfur sem þyrfti til að stunda nám á framhaldsskólabraut í X.

 

3.

Í umsögn X kemur fram að barn kærenda sótti um skólavist í skólanum á framhaldsskólabraut vorið 2019, í gegnum vef Menntamálastofnunar. Samkvæmt inntökureglum skólans geta nemendur með C og D í kjarnagreinum innritast á framhaldsskólabraut. Teknir voru inn í tveir hópar vorið 2019 og fylltust báðir hóparnir. Nemendum var raðað inn á brautina í samræmi við einkunnir úr grunnskóla og því miður var ekki verið hægt að taka inn alla þá nemendur sem óskuðu eftir skólavist á framhaldsskólabrautinni.

 

Af þeim gögnum sem að skólinn fékk í hendur við innritun uppfyllir barn kærenda ekki þær kröfur sem gerðar eru til nemenda sem innritast á framhaldsskólabraut. Í fimm greinum, ensku, íslensku, náttúrugreinum, samfélagsgreinum og stærðfræði er barnið með einkunn D, stjörnumerkt. Í athugasemdum frá grunnskóla barnsins kemur fram að það hafi engan áhuga sýnt á náminu og í náttúru- og samfélagsgreinum hafi engar forsendur verið fyrir námsmati.

 

Þá kemur fram að í leiðbeiningum Menntamálastofnunar vegna umsókna grunnskólanemenda um skólavist séu skýrar leiðbeiningar um kæruleiðir og andmælarétt. Í leiðbeiningum til forráðamanna grunnskólanemenda segir:

 

„Skólameistari hvers framhaldsskóla ber ábyrgð á að afgreiðsla umsókna sé í samræmi við kröfur um undirbúning sem skólinn gerir, svo og verklagsreglur ráðuneytisins. Skólameistara ber að rökstyðja ákvörðun skóla ef umsækjandi óskar eftir því. Heimilt er að kæra synjun umsóknar til ráðuneytisins ef umsækjandi unir ekki skýringu skólameistara.“

 

Að beiðni móður barnsins ritaði aðstoðarskólameistari skólans bréf með rökstuðningi fyrir synjun um skólavist í skólanum. Það bréf var ekki leiðbeiningaskyld stjórnvaldsákvörðun heldur rökstuðningur fyrri ákvörðunar um synjun á skólavist og þá með tilvísun í leiðbeiningar Menntamálastofnunar.

 

Í umsögn skólans segir enn fremur að í bréfi móður barnsins hafi komið fram að barnið sé langveikt barn, mikið lesblint, með ADHD greiningu, mótþróaþrjóskuröskun og kvíða. Barnið hafi verið með aðlagað námsefni og stjörnumerkt námsmat alla grunnskólagönguna. Í umsögninni segir að það sé mat sérfræðinga við skólann að barnið muni ekki fá þá þjónustu í skólanum sem það virðist þurfa til að dafna og vaxa í framhaldsskóla. Af gögnum má ráða að framhaldsskólabraut skólans hentar barninu og þörfum þess ekki. Starfsbraut skólans er sérhæfð fyrir nemendur með einhverfu og þar eru engin úrræði fyrir barnið.

 

Þá segir að krafa móður barnsins um skólavist í X hafi móðirin m.a. rökstutt á þann veg að félagar barnsins úr grunnskóla séu allir í skólanum og að styttra sé í skólann en önnur úrræði sem barninu standi til boða. Bendir skólinn á að Menntamálastofnun beri ábyrgð á að finna ólögráða grunnskólanemendum skólavist sem ekki hafa fengið inn í framhaldsskóla að loknu grunnskólanámi. Barninu stendur nú m.a. til boða skólavist í Y.

 

Að lokum bendir skólinn á að framhaldsskólar hafa ekki innritað nemendur út frá búsetu eða félagstengslum. Umsækjendum er raðað í afgreiðsluröð eftir einkunnum og öðrum þáttum sem lagðir eru til grundvallar inntöku nýnema byggða á reglum skólans. Þeir sem uppfylla skilyrðin best verða fremstir og svo koll af kolli. Framhaldsskólabraut X sé fullsetin haustið 2019 og ekkert rými til að taka þá inn sem því miður fengu ekki skólavist í skólanum.

 

4.

Í athugasemdum kærenda við umsögn X kemur fram að í umsögn skólans komi fram að „framhaldsskólarnir hafi ekki innritað nemendur út frá búsetu eða félagstengslum.“ Að mati kærenda stangast umræddar upplýsingar á við upplýsingar um framhaldsskólabrautina sem finna má á heimasíðu skólans. Þar kemur fram að nemandi með einkunn C eða D í kjarnagreinum innritist á framhaldsskólabraut. Því næst segir að „nemendur úr nærumhverfi skólans hafi forgang um skólavist.“ Upplýsingar í umsögn skólans stangast því á við upplýsingar sem finna má á heimasíðu hans. Þó ekki séu endilega laga- eða reglugerðaskilyrði að finna þess efnis geta slíkar yfirlýsingar skólans skapað réttmætar væntingar þess efnis. Þó að námsbrautin hafi fyllst er það ekki borgarinn sem þarf að bera skertan hlut frá borði vegna slíkra yfirlýsinga heldur stjórnvaldið.

 

Í annan stað benda kærendur á að rétt sé að minna á þá grundvallarreglu sem hafa ber í huga þegar teknar eru ákvarðanir er varða börn. Það er rauður þráður í gegnum réttarsviðið að ávallt beri að taka ákvörðun sem barninu er fyrir bestu. Sú regla er m.a. orðuð í 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns, lög nr. 18/1992, og er stjórnvalda þar meðal annars getið.

 

Að mati kærenda er vandséð hvernig það þjóni hagsmunum barnsins, með hliðsjón af þeim vandamálum sem það hrjáir, að fá skólavist í Y. Barnið á ekki auðvelt með að mynda ný félagsleg tengsl. Kjarnavinahópur þess úr grunnskóla er í X en sem stendur bíður barnsins algjörlega ókunnugt umhverfi í Y. Þá má einnig nefna að það hefði í för með sér tæplega 70 mínútna ferðalag með strætisvagni. Innan við hálftíma er hins vegar í X. Viðbúið er að 140 mínútna ferðalag dag hvern verði síst til að auka áhuga barnsins á námi.

 

Að öðru leyti ítreki kærendur fyrri sjónarmið sín.

 

IV.

Rökstuðningur fyrir niðurstöðu

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, verður hér einungis fjallað um þær málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

1.

Í 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, er fjallað um innritun og rétt til náms. Þar er mælt fyrir um að þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Samkvæmt 33. gr. framhaldsskólalaga eiga allir nemendur framhaldsskóla rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og vellíðan.

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laganna ber hver framhaldsskóli ábyrgð á innritun nemenda, en í samningi skóla og ráðuneytisins skv. 44. gr. laganna skal sérstaklega kveðið á um skyldur einstakra framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur sem skóli leggur til grundvallar innritun nemenda. Þá kemur fram að framhaldsskóla sé heimilt að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla. Þá er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli og ákvæði um innritun nemenda sbr. 3. mgr. 32. gr. framhaldsskólalaga. Á grundvelli þess ákvæðis hefur verið sett reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla nr. 1150/2008, með síðari breytingum. Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um innritun og rétt til náms. Samkvæmt 2. mgr. 2 gr. reglugerðarinnar er framhaldsskóla heimilt að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla enda miði þær að því að bjóða nemendum upp á nám sem hæfir undirbúning þeirra, sbr. 2. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar geta nemendur sem lokið hafa skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla, innritast á námsbrautir í framhaldsskóla. Kröfur um undirbúning og önnur skilyrði innritunar skulu miðast við skólaeinkunnir við lok grunnskóla og aðra þætti sem miða að því að nemendur hafi nægan undirbúning til að takast á við nám á viðkomandi námsbraut. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er innritun nemenda á ábyrgð skólameistara. Við mat á umsóknum ber skólameistara að taka mið af kröfum skólans um undirbúning, sbr. 3. gr., almennum viðmiðum í skólanámskrá, ákvæðum 4. gr. um skólasamninga og gæta að öðru leyti samræmis og jafnræðis við mat á sambærilegum umsóknum.

Þá er jafnræðisreglan lögfest  í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í 1. mgr. 11. gr. er mælt fyrir um það að við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

2.

Í máli þessu liggur fyrir að barni kærenda var synjað um skólavist á framhaldsskólabraut X veturinn 2019-20. Hafa kærendur bent á að barn þeirra sé langveikt barn, mikið lesblindur, með ADHD greiningu, mótþróaþrjóskuröskun og kvíða. Barnið hafi verið með aðlagað námsefni og stjörnumerkt námsmat alla grunnskólagönguna en þrátt fyrir það ekki valdið þeim námskröfum sem á það hafi verið settar. Þá hafi kjarnavinahópur barnsins fengið skólavist í skólanum.

Í rökstuðningsbréfi skólans og í umsögn þess kemur fram að samkvæmt inntökureglum skólans hafi nemendur með einkunn C og D í kjarnagreinum innritast á framhaldsskólabraut skólans og að þeim hefði verið raðað inn á brautina í samræmi við einkunnir úr grunnskóla. Skólinn hafi tekið tvo hópa inn á framhaldsskólabrautina og fylltust báðir hóparnir og því komust færri að en sóttu um á brautina. Miðað við einkunnir úr grunnskóla hafi barn kærenda ekki uppfyllt þær námskröfur sem þarf til þess að stunda nám á framhaldsskólabraut X en í fimm námsgreinum hafi barnið verið með einkunn D, stjörnumerkt. Þá væri það mat sérfræðinga við skólann að barnið myndi ekki fá þá þjónustu í skólanum sem það virtist þurfa til að vaxa og dafna í framhaldsskóla. Þá væri það enn fremur mat þeirra af gögnum málsins að framhaldsskólabrautin henti ekki barninu né þess þörfum.

Eins og áður hefur komið fram er framhaldskóla heimilt að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir í framhaldsskóla sbr. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 92/2008 og 2. mgr. 2. gr. rgl. nr. 1150/2008.  Skólinn hefur bent á að hann hafi fengið fleiri umsóknir frá nemendum um skólavist á framhaldsskólabraut skólans heldur en hann gat innritað. Skólinn hafi því raðað nemendum inn á brautina í samræmi við einkunnir úr grunnskóla og því miður hafi færri komist að en óskuðu eftir. Þá hefur skólinn bent á að barn kæranda hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til nemenda sem innritist inn á framhaldsskólabraut skólans. Með vísan til þess er ljóst að mati ráðuneytisins að málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar hjá skólanum þegar hann tók ákvörðun um að synja barninu um skólavist á framhaldsskólabraut skólans veturinn 2019-20. Þá er enn fremur ljóst að barn kærenda var ekki eini nemandinn sem synjað var um skólavist á framhaldskólabrautinni og þrátt fyrir að kjarnavinahópur barnsins hafi innritast inn í skólann verður skólinn að gæta jafnræðis milli nemenda og byggja á málefnalegum sjónarmiðum þegar ákvörðun er tekin um veitingu skólavistar.

Þá hafa kærendur bent á að barnið sé án skólavistar en samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 92/2008, eigi þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða náð 16 ára aldri rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þá eigi allir nemendur framhaldsskóla rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan sbr. 33. gr. laganna. Þá skulu framhaldsskólar leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi sbr. 4. mgr. 34. gr. laganna. Í þessu sambandi vill ráðuneytið vekja athygli á að barninu var útveguð skólavist í [framhaldsskólanum] Y sem kærendur afþökkuðu. Þá er rétt að vekja athygli á því að hvorki ákvæði 1. mgr. 32. gr. né í þeim skýringum sem fylgdu með greininni í frumvarpinu sem varð að lögunum, er lögð á skylda til að útvega þeim sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða náð 16 ára aldri skólavist í þeim skóla sem þeir óska, heldur er einungis sagt að áðurnefndir einstaklingar eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Með því er ljóst að umrædd skylda var uppfyllt þegar barninu var útveguð og boðin skólavist í Y, sem kærendur afþökkuðu. Þá telur ráðuneytið að það verði enn fremur að hafa það í huga að sérfræðingar í X telja að barnið myndi ekki fá þá þjónustu í skólanum sem það virðist þurfa til að vaxa og dafna í framhaldsskóla.

Þá er það jafnframt mat kærenda að ekki hafi verið að sjá af rökstuðningsbréfi skólans fyrir ákvörðuninni að leiðbeiningar um kæruleið til ráðuneytisins hafi verið veittar með réttum hætti. Skólinn bendir á að rökstuðningsbréfinu hafi ekki verið að finna leiðbeiningaskyld stjórnvaldsákvörðun heldur rökstuðningur fyrri ákvörðunar um synjun á skólavist og þá með tilvísun í leiðbeiningar Menntamálastofnunar vegna umsókna grunnskólanemenda um skólavist. Í þeim leiðbeiningum sé að finna skýrar leiðbeiningar um kæruleiðir og andmælarétt. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal stjórnvald þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda sbr. 1. tölul. 2. mgr., um kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert beina skuli kæru sbr. 2. tölul. 2. mgr., auk upplýsinga um frest til þess að bera ákvörðun undir dómstóla ef slíkur frestur er lögákveðinn sbr. 3. tölul. 2. mgr. Fylgi rökstuðningur ákvörðun þegar hún er tilkynnt skal veita leiðbeiningar skv. 2. og 3. tölul. 2. mgr. Með vísan til þess er það mat ráðuneytisins að þegar stjórnvald, eða skóli eins og í þessu tiltekna máli, tekur ákvörðun um að synja nemanda um skólavist verði að telja eðlilegt og í samræmi við ákvæði 7. og 20. gr. stjórnsýslulaga, að í sama bréfi og skólinn tilkynnir ákvörðun um synjun á skólavist, sé jafnframt leiðbeint um heimild til þess að óska eftir rökstuðningi fyrir ákvörðunina og heimild til þess að kæra hana.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist en að staðfesta hina kærðu ákvörðun X, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

V.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun X um að synja ólögráða barni kærenda um skólavist á framhaldsskólabraut skólans veturinn 2019-20, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum